Jökull ræddi við 433.is á árlegum kynningarfundi Bestu deildarinnar í dag. Þar var Stjörnunni spáð 5. sæti í spá þjálfara, fyrirliða og formanna liða í deildinni.
„Þetta er mjög eðlileg spá miðað við síðasta tímabil og liðin í kringum okkur, hvernig þau hafa styrkt. Við viljum augljóslega ekki enda í fimmta sæti. Við þurfum að byrja mótið vel. Það er erfiður leikur á móti FH í fyrsta leik og við erum með fulla einbeitingu á því,“ sagði Jökull.
Hann er ánægður með veturinn og styrkingarnar á leikmannamarkaðnum, en kveður þá sem hafa yfirgefið liðið með söknuði.
„Ég er mjög ánægður með þá sem hafa komið inn. Við höfum sömuleiðis misst rosalega marga sterka leikmenn. Það á bara eftir að koma í ljós hvaða áhrif þær breytingar hafa á hópinn. Þetta eru meiri breytingar á milli ára en maður myndi vilja, en það var margt sem kom upp, leikmenn sem fóru í atvinnumennsku, aðrir sem hættu.“
Jökull var spurður að því hvort markmiðið væri að fikra sig nær Breiðabliki og Víkingi, sem hafa verið bestu lið landsins undanfarin ár.
„Mér finnst rosalega leiðinlegt að hafa önnur lið sem eitthvað viðmið. Við viljum komast ofar í töflunni, verða betri og fá meiri stöðugleika í okkar leik. Það fæst með því að byrja mótið vel.“
Viðtalið í heild er í spilaranum.