Ruben Amorim, stjóri Manchester United, hefur blásið alfarið á orðróma um að fyrirliði liðsins, Bruno Fernandes, gæti farið til Real Madrid.
Slúðursögur hafa verið á kreiki um að Real Madrid sé að undirbúa risatilboð í þennan þrítuga Portúgala, sem er besti leikmaðurinn í slöku liði United um þessar mundir.
„Bruno fer ekki. Hann er þrítugur en er enn ungur, hann getur spilað yfir 50 leiki á tímabili,“ sagði Amorim um málið á blaðamannafundi.
„Svona leikmenn vil ég hafa. Einn daginn viljum við vinna ensku úrvalsdeildina aftur svo við þurfum að hafa okkar bestu leikmenn hjá okkur. Hann fer ekki neitt og ég er búinn að segja honum það.“
Fernandes gekk í raðir United árið 2020 og hefur verið lykilmaður allar götur síðan. Hann er samningsbundinn á Old Trafford í rúm tvö ár í viðbót.