Magnús Már Einarsson, þjálfari nýliða Aftureldingar í Bestu deild karla, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni á 433.is.
Bræðurnir Jökull og Axel Óskar Andréssynir gengu í raðir uppeldisfélagsins í Aftureldingu, sem er nýliði í Bestu deildinni á komandi leiktíð, í vetur. Magnús segir frábært að vinna með þessum afar hressu drengjum.
„Það er bara geggjað að hafa þá saman. Eins og bræður eru oft eru þeir mjög samlyndir og það gefur þeim smá extra að vera að spila saman, því þeir hafa í raun aldrei gert það á ferlinum. Þeir eru mjög spenntir fyrir því. Það er líka gaman fyrir þeirra fjölskyldur og okkur því þetta eru tveir uppaldir strákar.
Það er líka gaman að sjá það á æfingum að þeir láta hvorn annan heyra það, að sjálfsögðu, þeir gera kröfur á hvorn annan og þekkja hvorn annan inn og út. Það verður gaman að sjá þá saman á vellinum í sumar,“ sagði Magnús.
Umræðan í heild er í spilaranum.