Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, hefur varað spænsku úrvalsdeildina við því að hans menn muni ekki mæta til leiks ef það sama gerist og gerðist þessa helgina.
Leikmenn Real fengu takmarkaða hvíld fyrir leik gegn Villarreal í gær sem vannst 2-1 en liðið spilaði við Liverpool í Meistaradeildinni í vikunni í mjög mikilvægum leik.
Ancelotti er orðinn þreyttur á vinnubrögðum spænska knattspyrnusambandsins og ef hans menn fá ekki betri meðferð þá mun liðið einfaldlega hafna því að mæta á þá leiki sem henta ekki.
,,Þetta er í síðasta sinn sem við spilum leik án þess að fá 72 klukkutíma hvíld,“ sagði Ancelotti á blaðamannafundi.
,,Við munum ekki mæta til leiks ef þetta gerist aftur. Við báðum La Liga í tvígang um að breyta tímasetningunni en fengum ekkert til baka.“