Pep Guardiola, stjóri Manchester City, hefur útskýrt af hverju hann var öskuillur eftir leik sinna manna gegn Brighton í gær.
City gerði 2-2 jafntefli við Brighton á heimavelli þar sem vængmaðurinn Jeremy Doku fékk gult spjald fyrir leikaraskap.
Guardiola var virkilega óánægður með þá ákvörðun Simon Hooper dómara leiksins og segir að Doku hafi einfaldlega verið að reyna að verja sjálfan sig.
,,Ef hann hoppar ekki þarna þá getur hann fótbrotnað. Hann hoppar til að forða sér frá snertingu,“ sagði Guardiola.
,,Jeremy er ekki leikmaður sem hendir sér niður. Dómararnir ættu að vita þetta en svona er staðan í dag.“
,,Þetta breytti ekki leiknum en ég sagði við dómarann að ef hann hefði ekki hoppað þá gæti hann hafa brotnað. Hann hoppaði til að verja sjálfan sig.“