Leikmennirnir Dagur Bjarkason og Halldór Hilmir Thorsteinson hafa gengið í raðir Gróttu en þeir koma frá uppeldisfélögum sínum KR og Fram.
Dagur, sem verður 19 ára gamall á árinu, er fjölhæfur leikmaður sem getur leikið alls staðar í varnarlínunni sem og á miðju. Þrátt fyrir ungan aldur á hann að baki 30 leiki með KV ásamt einum bikarleik og þremur Lengjubikarleikjum með KR. Dagur hefur komið af krafti inn í Gróttuliðið síðustu vikur og byrjað alla þrjá leiki liðsins í Lengjubikarnum.
Halldór Hilmir er ári yngri, verður 18 ára í sumar, og leikur sem varnarmaður. Hann er fæddur og uppalinn Framari og lékk upp yngri flokkana með félaginu, fyrst í Safamýrinni og síðar í Úlfarsárdal eftir flutning Fram þangað. Halldór spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik þegar Grótta mætti Haukum í fyrstu umferð Lengjubikarsins í febrúarlok.
Rúnar Páll Sigmundsson er ánægður með hugarfar nýju leikmannanna: „Ég er ánægður með komu þessara ungu drengja sem eiga eftir að styrka ungan leikmannahóp Gróttu. Dagur og Halldór eru flottir strákar með metnað fyrir því að ná lengra.”