Mikael Nikulásson fyrrum þjálfari KFA furðar sig á því að það hafi lekið út úr herbúðum Fram að Alex Freyr Elísson hefði skrópað á æfingu liðsins á miðvikudag. Rætt var um málið í Þungavigtinni í dag.
Fram kom í gær á Fótbolta.net að Alex Freyr hefði ekki mætt til æfingu en Fram er á Marbella í æfingaferð.
„Hann skilaði sér heim 14:00 daginn eftir, þetta er óásættanlegt;“ sagði Kristján Óli Sigurðsson um málið í Þungavigtinni.
Alex Freyr er algjör lykilmaður í liði Fram en þjálfari hans Rúnar Kristinsson var ekki sáttur með þetta.
„Ég skil vel að Rúnar sé ekki sáttur, skiptir ekki máli hvort hann sé meiddur eða ekki. Hann þarf að fara í ræktina eða með sjúkraþjálfara úti á vellinum. Þetta er óásættanlegt,“ sagði Mikael.
Mikael furðar sig á því að þetta hafi komist í fréttirnar.
„Hvað er þetta að gera í fjölmiðlum? Þetta er leki úr hópnum, þetta er æfingaferð á Spáni og enginn að fylgjast með þessu. Bara liðið í kringum þetta sem sér þessa æfingu, 0,001 prósent af þjóðinni vissi að Fram væri í æfingaferð.“