Knattspyrnumaðurinn Mario Balotelli er hreint ótrúlegur karakter. The Upshot tók saman nokkrar magnaðar sögur af Balotelli í gegnum tíðina.
Fyrstu árin í atvinnumennsku
Viðvörunarbjöllurnar fóru snemma að hringja. 17 ára gamall Balotelli var á mála hjá Lumezanne í ítölsku C-deildinni. Eitt sinn hrekkti hann liðsfélaga sína með því að pissa á hreinu fötin þeirra. Liðsfélagi hans sagði síðar að hann hafi stundum pissað á þá.
Ári síðar fór Balotelli til Inter. Það er fræg saga þaðan þegar hann var eini framherjinn sem var heill í einum leik. Balotelli var með gult spjald í hálfleik og stjórinn, sjálfur Jose Mourinho, sagði honum að passa sig. Eftir mínútu í seinni hálfleik fékk kappinn sitt seinna gula spjald og þar með rautt.
Árið 2009 voru stuðningsmenn Balotelli allt annað en sáttir með hann. Þá sagðist hann vera stuðningsmaður nágranna þeirra í AC Milan. Eitthvað sem er alls ekki vinsælt.
Manchester City
Balotelli kom sér oft í fréttirnar eftir að hann fór til Manchester City. Hann vann deildina einu sinni með félaginu en kom sér í fréttirnar fyrir annað.
Eitt sinn kastaði hann pílum út um glugga í átt að leikmönnum unglingaliðs City. Hann fékk 100 þúsund punda sekt. Spurður út í atvikið sagði Balotelli: „Mér leiddist.“
Árið 2011 spilaði City æfingaleik við LA Galaxy í Bandaríkjunum. Balotelli komst í dauðafæri en ákvað að snúa sér við og taka skot með hælnum. Hann skaut framhjá. Stjórinn Roberto Mancini brjálaðist, tók Ítalann af velli og baulað var á hann á leiðinni út af.
Skömmu síðar kveikti Balotelli á flugeldum í íbúð sinni í Manchester og rústaði baðherberginu. Tjónið hljóðaði upp á 400 þúsund pund.
Balotelli er einnig talinn hafa átt í sambandi við vændiskonuna Jenny Thompson, sem var hluti af framhjáhaldsskandal Wayne Rooney. Þegar Balotelli hitti hana á veitingastað sönglaði hann „Rooney, Rooney, Rooney.“ Afar sérstök hegðun.
Alltaf til vandræða
Vandræði Balotelli hafa ekki hætt á seinni árum. Þegar hann var á mála hjá Adana Demirspor árið 2021 lamdi hann liðsfélaga á bekknum af því hann var pirraður yfir því að vera tekinn út af.
Svona mætti lengi áfram telja.