Margir eru á því að Samúel Kári Friðjónsson, leikmaður Stjörnunnar, hafi átt að fá þyngri refsingu en það tveggja leikja bann sem Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur ákveðið að hann skuli sæta fyrir gróft brot í leik gegn KR á sunnudag.
Liðin mættust í Lengjubikarnum og fór Samúel Kári í glórulausa tæklingu á Gabríel Hrannari Eyjólfsssyni, leikmanni KR, í leiknum, sem Vesturbæingar unnu 1-3. Dómari leiksins lyfti strax upp rauða spjaldinu og þar með ljóst að Samúel Kári væri á leið í eins leiks bann. Aganefndin bætti hins vegar einum leik við hið hefðbundna bann.
Aron Elvar Finnsson, íþróttablaðamaður á Morgunblaðinu, er á meðal þeirra sem telja refsinguna of væga og bendir hann á að Ibrahima Balde, leikmaður Vestra, hafi fengið þriggja leikja bann fyrir hegðun sína í leik gegn ÍR í Lengjubikarnum á dögunum.
„Ibrahima Balde fékk þriggja leikja bann fyrir enni í enni. Mjög heimskulegt en þar var enginn í hættu á að meiðast. Þetta hlýtur að vera falin myndavél?“ skrifar Aron á samfélagsmiðilinn X.
Mun fleiri hafa gagnrýnt Samúel Kára harðlega fyrir brot sitt á sunnudag. Sjálfur hefur hann beðið bæði Gabríel Hrannar og Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara KR, afsökunar.
Meira
Samúel Kári opnar sig um atvikið í gær – Hringdi tvö símtöl í Vesturbæinn