Það var lítið um að vera í leiknum, sem KR vann 1-3, þegar Gabríel Hrannar Eyjólfsson tók við boltanum úti við hliðarlínu en þá mætti Samúel Kári og þrumaði hann niður. Dómari leiksins, Elías Ingi Árnason, reif strax upp rauða spjaldið.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, ræddi við Fótbolta.net í dag og segir Samúel Kára hafa beðið Gabríel Hrannar afsökunar.
„Hann hafði samband við mig, fékk númerið hjá Gabríel og var mjög leiður yfir þessu. Þetta er bara búið og gert, menn gera hluti sem þeir sjá eftir. Hann er bara maður að meiri að hringja í Gabríel og biðja hann afsökunar, bara vel gert hjá honum,“ sagði Óskar.
Samúel Kári sjálfur ræddi einnig við Fótbolta.net. Er hann fullur eftirsjár.
„Það er lítið hægt að segja um tæklinguna í gær nema það að þetta var algjörlega óásættanlegt og algjörlega úr takti við það sem ég stend fyrir, bæði sem leikmaður og persóna. Svona á ekki að gerast á vellinum,“ sagði Samúel.
„Ég er búinn að tala við bæði Óskar og Gabríel og biðjast afsökunar og menn hafa skilið sáttir. Mikilvægast er að Gabríel hafi ekki slasast.“