Eva Murati, sjónvarpskona í Albaníu, opnaði sig á dögunum um einelti sem hún varð fyrir á yngri árum af hálfu nettrölla.
Murati hefur slegið í gegn í umfjöllun um Meistaradeildina og fleira í heimalandinu. Hún er í dag 29 ára gömul en byrjaði í sjónvarpi aðeins 17 ára.
„Ég byrjaði 17 ára en lenti í einelti frá nettröllum. Ég þurfti að læra að meta sjálfa mig eins og ég er,“ sagði Murati.
„Ég hætti að sækjast eftir samþykki frá öðrum og fann styrkinn innra með mér. Nú hefur engin áhrif á mig hvað aðrir segja um mig.“
Murati segir að því miður sé það erfiðara að vera kona en karl í þessum bransa.
„Konur eru gagnrýndar fyrir hluti eins og andlitsfarða, hárgreiðslu og fatastíl. Eitthvað sem hefur ekkert með hæfni þeirra í starfi að gera.“