David Villa, fyrrum framherji Barcelona og spænska landsliðsins, hvetur félagið til að reyna að fá Alexander Isak til félagsins.
Sænski framherjinn er að eiga frábært tímabil með Newcastle. Hefur hann verið orðaður við stærri lið, þar á meðal Barcelona en einnig lið eins og Arsenal og Paris Saint-Germain.
„Isak er virkilega góður og þekkir La Liga,“ segir Villa, en Isak kom til Newcastle frá Real Sociedad á sínum tíma.
„Það væri líka flott að fá Haaland en ég er ekki viss um að City myndi sleppa honum,“ sagði Villa enn fremur léttur.
Newcastle, sem er í hörkubaráttu um Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni, hefur ekki mikinn áhuga á að selja Isak í sumar og ljóst að hann verður allavega ansi dýr fyrir það félag sem ætlar sér að fá hann.