Kyle Walker, leikmaður AC Milan á láni frá Manchester City, hefur komið sér í fréttirnar enn á ný og þarf það ekki að koma neinum á óvart að þær hafi lítið með knattspyrnu að gera.
Walker gekk í raðir Milan frá City í janúar og gætu skiptin orðið endanleg í sumar, en margir tóku eftir því að farið væri að hægjast á kappanum í ensku úrvalsdeildinni. Þá er talið að hluti ástæðunnar fyrir því að bakvörðurinn flutti frá Englandi væri tengd málum hans utan vallar. Framhjáhald Walker hefur verið í brennidepli. Hann er giftur Annie Kilner og á með henni fjögur börn en hefur barnað konu að nafni Lauryn Goodman tvisvar.
Walker og Kilner eru sögð vera að skilja en reyna að halda samskiptum sínum á góðu nótunum, barna sinna vegna. Hún flutti ekki með honum til Ítalíu en kíkti í heimsókn með synina á dögunum. Sáust þau til að mynda versla saman en kvöldið eftir var Walker mættur á skemmtistað með tveimur öðrum konum, eftir að fjölskylda hans var floginn heim til Englands. Um er að ræða stað sem þekktur er á meðal ríka og fræga fólksins í Mílanó og eyddi Walker tæpri milljón íslenskra króna þar í borð á góðum stað og áfengi.
Heimildamenn breska götublaðsins The Sun segja að Walker hafi virkað í ansi góðum gír með stelpunum tveimur og hóp sem hitti þau síðar um kvöldið. Fólkið í kringum leikmanninn vill þó meina að hann hafi ekki drukkið neitt áfengi þetta kvöld. Flestir eru þó á því að þetta líti ekki vel út svona rétt eftir að hann kvaddi fjölskyldu sína og í ljósi vandræðanna sem hafa verið á leikmanninum utan vallar.
Walker hafði verið að glíma við meiðsli þegar þessi uppákoma átti sér stað en hann spilaði hins vegar með Milan í tapi gegn Lazio í Serie A í gær.