Ekki eru allir sammála því að Sigmar Vilhjálmsson og hans fólk hafi verið fórnarlömb þegar þeim var hent út af Ethiad vellinum á sunnudag fyrir að halda með Liverpool.
Sigmar er harður stuðningsmaður Liverpool en hann og hópurinn sem hann var með sat á svæði stuðningsmanna City á vellinum í gær. Liverpool vann leikinn 0-2 og er liðið komið með aðra hönd á Englandsmeistaratitilinn en uppákoma á vellinum skyggði á upplifun Sigmars og félaga.
Hópnum, að Sigmari undanskildum, var nefnilega hent út af vellinum fyrir að hafa fagnað fyrra marki Liverpool. Stuðningsmenn City, feðgar að sögn Sigmars, klöguðu þá en það vildi svo til að hann hafði gert sér ferð á salernið þegar atvikið kom upp.
Þetta hefur vakið upp umræður víða en þar á meðal í hinum fjölmenna hópi Dr. Football leikmenn þar sem knattspyrnuáhugafólk ræðir málin. Flestir eru á því að Sigmar og hans fólk hafi ekki verið fórnarlamb í þessu máli.
„Ég hnaut um þessa smáfrétt og ég verð að segja að eftir að hafa farið á fjölda leikja í landi fótboltans þar sem liðinn ertu eldheit trúarbrögð, skil ég algörlega hvers vegna þessir aðilar voru reknir út. Sumt bara gerir maður alls ekki á Englandi og ágætt fyrir okkur molbúana að hafa það í huga þegar maður fer á leik í landinu helga,“ sagði Gestur Runarsson Brettingz og birti þar frétt 433.is um mál Sigmars.
Allir taka í sama streng en oft hafa orðið slagsmál við svona aðstæður á völlum Englands þar sem blóðheitir stuðningsmenn kunna ekki að meta þegar stuðningsmenn andstæðinganna fagna á þeirra svæði.
Sigurður Óli Þórleifsson
Já, alveg sammála, skiptir engu þó að 12 ára hafi verið með í för. Þetta er ekki til eftirbreytni hjá Simma vini mínum.
Óskar G Óskarsson
Held að þeir hafi nú frekar verið að vernda þá með því að láta henda þeim út.
Margir Bretar eru það ruglaðir að þú getur lent í alvöru veseni með því að fagna í stúkunni hjá andstæðingnum
Jón Frímann Eiríksson
Ég hugsaði það sama, vorkenndi þeim lítið. Það er á öllum völlum í Englandi skilti þar sem stendur við allar stúkur nema í stúkunni fyrir aðkomuliðið “No away colours”
Arnar Jóhannsson
Hann er heppinn að vera bara rekinn út en ekki laminn. Þú getur ekki verið á miðju óvinasvæði og byrjað að fagna. Alveg sama hvað þú ert gamall