Manchester United ætlar að sækja framherja í sumar og hefur augastað á bæði Victor Osimhen og Viktor Gökeres.
Gyökeres hefur raðað inn mörkum fyrir Sporting undanfarin tímabil og er Osimhen sömuleiðis búinn að vera iðinn við markaskorun frá því hann fór til Galatasaray á láni frá Napoli í sumar.
Fabrizio Romano segir að félagið fylgist náið með báðum leikmönnum en hvort þeir komi á Old Trafford hefur með kostnað að gera og að United nái að klára kaupin innan ramma fjárhagsreglna.
Engar viðræður eru farnar af stað eða þess háttar en það þykir nokkuð ljóst að United þarf að kaupa framherja í sumar. Rasmus Hojlund og Joshua Zirkzee hafa langt frá því náð að heilla frá komu sinni.
Þá fór Marcus Rashford á láni til Aston Villa í janúar og má búast við að hann yfirgefi Old Trafford endanlega í sumar.