Enskur blaðamaður segir að Arnór Sigurðsson hafi líkamlega ekki ráðið við ensku Championship-deildina. Íslenski landsliðsmaðurinn hefur yfirgefið félagið og er á leið til Malmö í Svíþjóð.
Arnór hafði verið hjá Blackburn í um eitt og hálft ár en hann var ekki skráður í leikmannahóp liðsins það sem eftir lifir þessa tímabils. Var honum tjáð það eftir að félagaskiptaglugganum var lokað og því settur í afar vonda stöðu, eins og hann sagði sjálfur. Arnór hafði verið að glíma við meiðsli en átti brátt að snúa aftur á völlinn.
„Að lokum voru þetta vonbrigði heilt yfir. Hann byrjaði mjög vel og margir voru spenntir fyrir þessum skiptum. Hann skoraði í fyrsta leik gegn Ipswich og leit út fyrir að hann yrði frábær leikmaður fyrir Blackburn. Því miður fataðist honum flugið þegar leið á tímabilið,“ segir Elliot Jackson, blaðamaður staðarmiðilsins Lancashire Telegraph, við sænska miðilinn Fotbollskanalen.
„Tæknilega séð var hann meira en nógu góður. Þetta var aðallega líkamlegt, hraðinn í leiknum hér gerði líkama hans ekki gott,“ sagði hann enn fremur um Arnór, sem glímdi töluvert við meiðsli á tíma sínum hjá Blackburn.
Jackson tekur undir að það hafi verið erfið staða að setja leikmanninn í að hafa hann utan hóps seinni hluta leiktíðar og láta hann vita svo seint.
„Satt best að segja held ég að þetta hafi ekki verið góð staða að setja leikmanninn í en svona hlutir gerast. Kannski sá félagið ekki fram á að hann myndi spila meira á tímabilinu og því hafi þetta verið rétt.“
Fleiri félög í Svíþjóð, sem og í Danmörku, vildu Arnór sem er hins vegar að ganga í raðir Svíþjóðarmeistara Malmö.