Það er ljóst að Danijel Dejan Djuric er að ganga í raðir NK Istra í króatísku úrvalsdeildinni. Félag hans, Víkingur, kvaddi leikmanninn í tilkynningu í dag.
Danijel gerði 9 mörk í Bestu deildinni í sumar og hefur þá skorað eitt mark í Sambandsdeildinni. Þar er Víkingur á leið í seinni leikinn gegn Panathinaikos á fimmtudag í umspili um sæti í 16-liða úrslitum. Íslenska liðið leiðir 2-1 eftir fyrri leikinn. Danijel verður hins vegar ekki með þar.
Hjá Istra hittir Danijel fyrir annan Íslending, Loga Hrafn Róbertsson sem gekk í raðir félagsins frá FH í vetur.
Tilkynning Víkings
Knattspyrnudeild Víkings hefur samþykkt tilboð króatíska úrvalsdeildarfélagsins NK Istra í Danijel Dejan Djuric, leikmann meistaraflokks.
Danijel er fæddur árið 2003, kom í Hamingjuna árið 2022 frá danska liðinu Midtjylland og hefur síðan leikið 119 leiki fyrir Víking og skoraði í þeim 41 mark. Hann hefur einnig leikið 59 landsleiki alls, þar af 3 fyrir A landslið Íslands.
Árið 2022 varð Danijel Mjólkurbikarmeistari með liðinu og árið 2023 bæði Íslands- og Mjólkurbikarmeistari. Í fyrra var Danijel lykilmaður í liði okkar Víkinga sem urðu Meistarar Meistaranna og eru enn að í Sambandsdeild Evrópu.
Knattspyrnudeild Víkings óskar Danijel velgengni og hamingju á nýjum vettvangi og um leið þökkum við honum kærlega fyrir sitt framlag. Sjáumst fljótlega í Hamingjunni Danni! ❤️🖤 dururururududu! Djuric!