Freyr Alexandersson þjálfari Brann sýndi því áhuga á að fá Höskuld Gunnlaugsson fyrirliða Breiðabliks. Þetta herma heimildir 433.is.
Af félagaskiptunum verður þó ekki samkvæmt sömu heimildum.
Brann leikur í norsku úrvalsdeildinni en Freyr tók við þjálfun liðsins á dögunum, liðið er eitt það besta í Noregi.
Höskuldur er þrítugur fyrirliði Íslandsmeistaranna en hann hefur verið einn allra besti leikmaður Bestu deildarinnar undanfarin ár.
Þessi knái leikmaður lék með Halmstad í Svíþjóð frá 2017 til 2019 en hefur síðan þá leikið með uppeldisfélagi sínu og í tvígang orðið Íslandsmeistari.
Félagaskiptaglugginn á Norðurlöndum er áfram opin næstu vikurnar og ekki útilokað að fleiri félög skoði það að fá Höskuld.