Danijel Dejan Djuric er á förum frá Víkingi á allra næstunni. Hann verður ekki með liðinu gegn Panathinaikos á fimmtudag.
Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála í Víkinni, staðfestir í samtali við Vísi að Danijel sé á förum. Sjálfur er hann í Króatíu að klára skiptin, en talið er að Danijel fari til liðsins Istra þar í landi.
Danijel gerði 9 mörk í Bestu deildinni í sumar og hefur þá skorað eitt mark í Sambandsdeildinni. Þar er Víkingur á leið í seinni leikinn gegn Panathinaikos á fimmtudag í umspili um sæti í 16-liða úrslitum. Íslenska liðið leiðir 2-1 eftir fyrri leikinn. Danijel verður sem fyrr segir að öllum líkindum ekki með þar.
Hjá Istra hittir Danijel fyrir annan Íslending, Loga Hrafn Róbertsson sem gekk í raðir félagsins frá FH í vetur.