Víkingur mætir Panathinaikos annað kvöld í fyrri leik liðanna í útsláttarkeppni Sambandsdeildarinnar.
Víkingur gerði frábært mót í keppninni fyrir áramót og er því komið í þetta umspil um sæti í 16-liða úrslitum.
Leikurinn annað kvöld er heimaleikur Víkings en fer fram í Helsinki í Finnlandi þar sem enginn völlur hér á landi er boðlegur til að hýsa leik á þessu stigi keppninnar.
Veðbankar hafa ekki allt of mikla trú á Víkingi fyrir leikinn annað kvöld, enda Panathinaikos grískt stórveldi sem er töluvert hærra skrifað. Stuðullinn á sigur Víkings á Lengjunni er til að mynda 6,82. Til samanburðar er hann 1,35 á Panathinaikos, 4,55 á jafntefli.
Leikurinn hefst klukkan 17:45 á morgun á íslenskum tíma. Seinni leikurinn fer svo fram viku síðar í Grikklandi.
Þess má geta að íslenski landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason er leikmaður Panathinaikos.