Spænskir miðlar fara í dag mikinn í kjölfar sigurs Real Madrid á Manchester City í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
City komst tvisvar yfir í Manchester í gær en gestirnir sneru dæminu við í lokin og unnu 2-3.
Það vakti athygli fyrir leik að stuðningsmenn City tóku á móti Vinicius Junior, leikmanni Real Madrid, með stórum borða þar sem skotið var á hann vegna viðbragða við því að vinna ekki Ballon d’Or í fyrra, en Rodri, leikmaður City, hlaut verðlaunin.
„Borðinn færði mikinn hita í leikinn,“ segir í spænska miðlunum Sport.
Þá var farið ófögrum orðum um City liðið. „Þetta er versta lið sem Pep hefur nokkurn tímann þjálfað,“ segir í frétt Mundo Deportivo.
„Þetta Manchester City lið er viðkvæmt,“ skrifaði blaðið Marca þá.