Manchester City tapaði á dramatískan hátt fyrir Real Madrid í frábærum leik í Meistaradeildinni í gær. Erling Braut Haaland virtist brjálaður eftir leik.
City komst tvisvar sinnum yfir í leiknum með mörkum Haaland, en Real Madrid sneri dæminu við í lokin og vann 2-3.
City er að eiga ansi slakt tímabil á þeirra mælikvarða á öllum vígstöðvum og það virðist vera að fara í Haaland. Hann rauk inn í búningsklefa eftir leik, tók aðeins í höndina á Carlo Ancelotti, stjóra Real Madrid, og virtist þá eiga eitthvað ósagt við Kylian Mbappe.
Ensku blöðin fjalla um málið í dag og benda á hversu mikill munur var á hegðun Haaland og hins meidda Rodri eftir leik. Miðjumaðurinn, sem hefur verið frá eftir að hafa slitið krossband snemma á leiktíðinni, tók í hönd allra leikmanna og hugreysti einnig liðsfélaga sína eftir tapið.
„Munur á viðbrögðum Rodri og Haaland segja allt sem segja þarf,“ segir til að mynda í fyrirsögn staðarmiðilsins Manchester Evening News.
Seinni leikur liðanna fer fram í Madríd eftir slétta viku.