Það vakti mikla athygli og umtal að Víkingur tefldi þrisvar gagngert fram ólöglegu liði í Reykjavíkurmótinu í ár. Þessi framganga var til umræðu á síðasta stjórnarfundi KSÍ.
Stígur Diljan Þórðarson gekk í raðir Víkings á nýjan leik í vetur og notaði liðið hann í þremur leikjum, að öllum líkindum til að gefa honum mínútur í aðdraganda leikjanna gegn Panathinaikos í útsláttarkeppni Sambandsdeildarinnar.
Einhverjir hafa gagnrýnt Víking fyrir þetta en aðrir skilja þá fullkomlega og að reglur Reykjavíkurmótsins um að nota leikmenn sem koma að utan séu úreltar.
„Stjórnarmenn ræddu framgöngu Víkings í Reykjavíkurmóti meistaraflokks karla, að tefla vísvitandi fram ólöglega skipuðu liði í þremur leikjum, og áhrif þeirrar framgöngu á heilindi og trúverðugleika mótsins. Stjórnarmenn skiptust á skoðunum um málið, ræddu þá stöðu sem mótið er komið í og um framtíð þess innan KSÍ,“ segir í fundargerð frá fundi stjórnar KSÍ þann 29. janúar, en fundargerðin var gefin út fyrir helgi.