„Fyrstu dagarnir hafa verið frábærir. Ég er í smá veseni með að finna íbúð og svona en þetta er samt bara geðveikt. Ég er kominn mun norðar núna, er 25 mínútum frá Mílanó, nálægt Lake Como, Tórínó. Þetta er geggjuð staðsetning og gott að vera nær flugvellinum upp á að fá fólk í heimsókn og svona,“ sagði Adam í ítarlegu spjalli við 433.is í dag.
Adam er enn á mála hjá Val, en félagið lánaði hann til Perugia fyrri hluta leiktíðar. Hlíðarendafélagið lánar hann sömuleiðis til Novara út þessa leiktíð. Adam hélt um tíma að hann væri á leið aftur til Íslands í félagaskiptaglugganum í janúar, en aðdragandinn að skiptunum til Novara var stuttur.
„Þetta voru 2-3 dagar. 1. febrúar hélt ég að ég væri að fara aftur til Íslands. Svo fékk ég skilaboð frá umboðsmanninum mínum um tilboð Novara. Degi seinna er ég að keyra upp eftir til Novara. Ég skrifaði undir á gluggadegi 3. febrúar en þetta fór ekki í gegn þá. FIFA gefur sér daginn eftir til að klára þetta. Ég var ekki einu sinni búinn að ganga í raðir félagsins þegar glugginn lokaði svo þetta var alveg smá stressandi og munaði litlu að þetta færi ekki í gegn,“ sagði Adam léttur í bragði.
Adam fór til Perugia í sumar og fór glimrandi vel af stað, skoraði þrennu í fyrsta leik. Það fór hins vegar að hallda undan fæti og Adam var ekkert í liðinu undanfarnar vikur.
„Mig langaði bara að fara. Ég var með samning út júní við Perugia en ef ég á að segja eins og er var staðan þar ekki góð. Mér leið hvorki vel innan vallar né utan svo mig langaði að prófa eitthvað nýtt. Mig langaði ekki að gefast upp á þessu strax og fara til Íslands.“
Adam nefnir að mikill órói hafi verið á bak við tjöldin hjá Perugia, miklar mannabreytingar til að mynda.
„Það voru tveir þjálfarar, þrír nýir yfirmenn íþróttamála, nýir eigendur. Ég held að það sé grunnurinn að þessu bulli sem var í gangi þarna. Svo voru miklar breytingar á hópnum. Þeir töldu ekki að ég myndi nýtast þeim og þeir létu mig vita af því í byrjun janúar. Þremur dögum fyrir gluggalok hringdu þeir svo í mig og sögðust ætla að fara að reka þriðja þjálfarann og að þeir væru þá til í að hafa mig áfram. Ég sagði bara nei, var ekki til í svona bull. Þessi klúbbur er risastór og sögufrægur, með geggjaða stuðningsmenn og ég er þakklátur fyrir þennan tíma. En hann er í smá hakki eins og er,“ sagði Adam.
„Ég fékk ekki að æfa með liðinu allan janúar. Ég var bara að skokka í hringi. Það voru þrír aðrir í sömu stöðu og í raun bara verið að ýta okkur frá klúbbnum. Ég er búinn að þroskast mikið hérna og læra hvað alvöru mótlæti er. Þetta er bara harður heimur heimur hérna úti. Þú ert bara hlutur fyrir þeim, ekki manneskja, svo þú þarft annað hvort að bíta á jaxlinn ef þú ætlar að eiga eitthvað í þetta.“
Þó Adam hefði án efa viljað að dvöl hans hjá Perugia hefði farið betur er hann heilt yfir þakklátur fyrir hana og ánægður með að hafa tekið skrefið út fyrir landsteinanna.
„Ég er gríðarlega þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að spila á Ítalíu og ég lifði góðu lífi þannig. Ég bjó einhverjum 40 mínútum frá Alberti (Guðmundssyni) og var að kíkja á hann tvisvar í viku. Þetta byrjaði svo ótrúlega vel að ég held að menn hafi búist við svo svakalega miklu af mér. Svo skipta þeir um þjálfara, eigendur, yfirmann fótboltamála og ég lendi í einhverri hringekju sem hentaði mér ekki alveg. En ég tek þetta með mér inn í framtíðina, ekki bara sem fótboltamaður heldur sem manneskja. Að búa einn og læra á lífið, hvað Íslendingurinn hefur það í raun gott,“ sagði Adam einlægur.
Novara er í hörkubaráttu um sæti í hinu afar strembna umspili Serie C. Liðið er á aðeins betri stað en Perugia í töflunni.
„Þetta er svona hliðarskref. Þetta lið var í efstu deild 2012. Þeir eru í umspilssæti núna og ég finn að það er mikill metnaður í klúbbnum. Perugia er stærri klúbbur þegar kemur að stuðningsmönnum, vellinum og svona en Novara eru aðeins stabílli klúbbur. Það er ekki alveg eins mikil pressa á að ná árangri. Klúbburinn er sáttur þar sem hann er núna en vill vonandi fara upp í Serie B. Það mikilvægasta fyrir mig er að fá að spila fótbolta. Ég hef í raun ekki spilað fótbolta síðan ég var tekinn út úr hóp hjá Val eins og frægt var. Það er kominn tími á að ég sýni hvað ég get,“ sagði Adam.
Hann kom inn á í sínum fyrsta leik fyrir Novara á dögunum, í 1-1 jafntefli gegn Alcione Milano í deildinni.
„Mér fannst ég standa mig ágætlega. Ég var svolítið eins og smákrakki að fá að spila fótbolta aftur. Ég er bara þakklátur fyrir allar þær mínútur sem ég fæ í dag. Maður lærir að hugsa lífið upp á nýtt og meta hlutina miklu betur eftir að maður lendir í mótlæti. Vonandi vinn ég mig inn í liðið hér sem fyrst.“
Í lánssamningi Adams hjá Novara er kaupmöguleiki og gæti hann því endanlega gengið í raðir félagsins í sumar frá Val. Hann tekur þó lokaákvörðun um slíkt.
„Það verður að koma í ljós. Ég tek einn leik í einu. Það voru smá mistök hjá mér að hafa farið að hugsa um Serie B og að Serie C væri ekki nógu góð fyrir mig um leið og ég skoraði þrennu og svona. Nú tek ég einn dag í einu og vonast til þess að spila næsta leik. Það er ekki gott að horfa og langt fram í tímann. Maður veit ekkert hvað lífið ber í skauti sér eftir sex mánuði,“ sagði Adam að endingu.