Aron Jóhannsson, leikmaður Vals, var gestur í nýjasta þætti Íþróttavikunnar á 433.is. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson hafa umsjón með þættinum.
Það var farið yfir síðustu leiktíð hjá Val, en liðið hafnaði í 3. sæti Bestu deildarinnar, náði Evrópusæti en var 18 stigum frá toppliði Breiðabliks. Þá var Arnar Grétarsson rekinn úr starfi þjálfara á miðju tímabili og Srdjan Tufegdzic, Túfa, tók við.
„Þegar við förum að sjá það að við eigum ekki lengur möguleika á titlinum fer þetta að súrna, bara hjá öllum. Við förum að tapa leikjum og pirra okkur á hlutunum, vorkenna sjálfum okkur sem á ekkert að gerast. Það er erfitt fyrir þá sem stjórna klúbbnum að losa allt liðið. Þá liggur beinast við að breytingin verði á þjálfarateyminu. Stundum virkar það, stundum ekki,“ sagði Aron um þjálfaraskiptin.
Það er ekki hægt að segja að gengi Vals hafi batnað eftir að Túfa tók við.
„Liðið var bara í slæmu standi þegar Túfa kom inn, margir meiddir og einhver deyfð yfir þessu. Of margir sjálfstraustslausir. Maður sér endalaust að þegar það kemur nýr þjálfari rífa menn sig í gang í nokkra leiki en svo fórum við bara aftur í sama farið og með Adda,“ sagði Aron.
„Mér finnst aldrei gaman þegar þjálfari er rekinn. Við upplifum að það sé okkur að kenna og maður tekur mikla ábyrgð á því og þykir það leiðinlegt. Þjálfarinn er rekinn því við erum ekki að standa okkur. En þetta er samspil margra þátta.“
Umræðan í heild er í spilaranum.