UEFA skoðar að breyta Meistaradeild Evrópu enn frekar á næstu árum, með velferð leikmanna í huga. Guardian fjallar um málið.
Það vakti athygli á þessu tímabili að nýtt fyrirkomulag var á Meistaradeildinni fyrir áramót. Í stað þess að skipta sér í fjögurra liða riðla, þar sem tvö lið fara áfram í 16-liða úrslit, fóru öll 36 lið keppninnar í einn graut. Þar mættu þau átta mismunandi andstæðingum og efstu átta lið deildarinnar fóru beint í 16-liða úrslit, lið 9-24 í umspil um sæti þar.
Leikmenn og knattspyrnstjórar hafa þó kvartað undan auknu leikjaálagi í fótboltanum almennt. Með þessu nýja fyrirkomulagi fjölgaði Meistaradeildarleikjum fyrir áramót til að mynda um tvo.
Með það í huga íhuga UEFA nú alvarlega að hætta með framlengingu í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar á næstu árum. Það yrði því farið beint í vítaspyrnukeppni ef jafnt er að loknum 90 mínútum.
Það er þó tekið fram að breytingin myndi sennilega ekki taka gildi fyrr en frá og með leiktíðinni 2027-2028, vegna þess að þá verða sjónvarpsrétthafasamningar endurnýjaðir. Það er þó ekki útilokað að breytingarnar verði gerðar fyrr.