Brynjar hefur mikið verið í umræðunni undanfarna sólarhringa og hann sakaður um að beita leikmenn sína ofbeldi, eitthvað sem þær sjálfar þvertaka fyrir.
Einn af þeim sem hefur komið Brynjari til varnar er Höskuldur Gunnlaugsson, einn fremsti knattspyrnumaður landsins og fyrirliði Breiðabliks. Hann stakk niður penna á Facebook-síðu sinni.
„Nú langar mig að taka upp hanskann fyrir manni sem ég hef þekkt persónulega í að verða níu ár. Árið 2016 leitaði ég til Brynjars þegar ég var á dimmum og erfiðum stað í mínu lífi. Til þess að gera langa sögu stutta, þá hjálpaði Brynjar mér ekki bara að „rétta úr kútnum”, heldur að hrinda af stað þroska- og ábyrgðarvegferð hjá sjálfum mér, sem hefur verið einhver dýrmætasta gjöf sem mér hefur verið gefin,“ segir Höskuldur í pistli sínum.
Brynjar sjálfur hefur talað um að hans markmið sé aðeins að lyfta kvennakörfubolta upp á hærra plan. Höskuldur segist hafa séð þetta í verki.
„Ég hef mætt á þó nokkrar æfingar og fylgst með stelpunum sem hann þjálfar, allt niður í yngstu flokka. Í fúlustu alvöru hef ég mætt að sjá æfingar hjá þeim til þess að fá innblástur fyrir sjálfan mig, þ.e til þess að fá beint í æð góða áminningu um hvernig flott viðhorf og ákveðið gildismat lítur út hjá iðkendunum. Og nei, hér er ekki verið að tala um einhverja teinrétta hermenn sem raða sér upp í línu, eða rússnesk vélmenni sem hafa ekki tilfinningar lengur vegna afreksmiðaðrar þjálfunar…hér er ég einfaldlega að tala um karaktera sem geisla af einlægu sjálfstrausti, risastórum hjörtum og einstaklega hrífandi skapgerð: Valdelfdir einstaklingar myndi vera hægt að kalla þetta.“
Höskuldur deilir svo frétt með myndbandi sem Brynjar birti. Þar sýnir hann þjálfara í karlaflokki notast við svipaðar aðferðir við leikmenn sína og hann hefur verið gagnrýndur fyrir.
„Ég ráðlegg fólki að minnka hlutdeild tímaveru sinnar í lágkúrulegri samfélagsumræðu fésbókarinnar og færa sig (og samfélagsumræðu sína) aftur í raunheima,“ segir Höskuldur að endingu.
Handboltalandsliðsgoðsögnin Björgvin Páll Gústavsson lagði einnig orð í belg. Bendir hann á að önnur viðmið gildi innan íþrótta en í lífinu sjálfu.
„Eitt af því besta við íþróttir er að þær gefa okkur tækifæri til að takast á við allskonar. Sá fullorðni íþróttamaður sem höndlar ekki að láta kalla sig eða sitt lið aumingja er ekki líklegur að þola margt af því sem sportið eða lífið mun henda í hann. Innan veggja íþróttanna gilda (í mínum hugarheimi allavega) önnur lögmál en utan vallar. Ég myndi aldrei tala við börnin mín eins liðsfèlaga mína, ég öskra ekki á vinnufèlaga mína líkt og strákana í klefanum og líkamstjáning mín innan vallar væri fáránleg á öðrum vettfangi.“