Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri ÍTF, sagði frá magnaðri uppákomu sem hann lenti í er hann heimsótti Argentínu í útvarpsþættinum Fótbolti.net á dögunum.
Birgir var í heimsókn hjá fjölskyldu sem hann hafði dvalið hjá sem skiptinemi í Argentínu á sínum tíma. Komst hann að því að í fjölskyldunni í dag væri argentískur nafni Rúriks Gíslasonar, fyrrum landsliðsmanns Íslands.
„Ég á stóra fjölskyldu þarna úti, skiptinemafjölskyldu. Það er haldið stórt partý, 60 manns. Ég er ekki búinn að hitta þetta fólk í 20 ár. Svo kemur ein argentínsk frænka mín upp að mér og heilsar. Hún heldur á nýfæddu barni og ég spyr hvað hann heitir. Hún segir að hann heiti Rúrik,“ rifjaði Birgir upp.
„Rúrik? Það er ekki nafn sem ég hef heyrt í Argentínu. Hún segir að þau hafi viljað norrænt nafn, víkinganafn. „Hvernig enduðuð þið á Rúrik?“ spyr ég hana. Þá spyr hún mig hvort ég þekki ekki Rúrik Gíslason.“
Eins og flestir vita varð Rúrik afar vinsæll í Argentínu, og í raun Suður-Ameríku allri, eftir að íslenska landsliðið mætti því argentíska á HM í Rússlandi 2018.
„Ég er ekki að djóka. Hún er þá svaka aðdáandi Ice Guys. Mér fannst þetta galið. Rúrik Gíslason á nafna í Argentínu, þetta er sturluð staðreynd,“ sagði Birgir enn fremur.