Arsenal er úr leik í enska deildarbikarnum eftir 2-0 tap á útivelli gegn Newcastle í kvöld, fyrri leik liðanna lauk með sömu niðurstöðu. Newcastle bókaði sér því farmiða á Wembley í úrslitaleikinn með 4-0 samanlögðum sigri.
Newcastle hafði yfirhöndina stærstan hluta leiksins og það var Jacob Murphy sem kom Newcastle yfir í fyrri hálfleiknum.
Markið var algjört rothögg fyrir Arsenal eftir fyrri leik liðanna og forskot Newcastle orðið ansi vænlegt.
Það var svo Anthony Gordon sem rak síðasta naglann í kistu Arsenal með öðru marki leiksins og 4-0 sigur Newcastle samanlagt var staðreynd.
Það kemur í ljós á morgun hvort það verði Liverpool eða Tottenham sem verða andstæðingar Newcastle í úrslitum enska deildarbikarsins.
Newcastle fór í úrslitaleikinn í þessari keppni fyrir tveimur árum en varð þá að sætta sig við tap gegn Manchester United.