Tvö íslensk knattspyrnufélög hafa á síðustu dögum verið dæmd í félagaskiptabann frá FIFA. Þetta eru Fram sem leikur í Bestu deild karla og Grótta sem leikur í 2. deild karla. Félagaskiptabannið nær aðeins yfir karlalið félagsins ef marka má vefsíðu FIFA.
Á vef FIFA kemur fram að bæði þessi félög hafi verið dæmd í félagaskiptabann, Fram frá 29 janúar og Grótta frá 31 janúar.
Ekki er tilgreint fyrir hvaða brot íslensku félögin eru sett í bann en um bannlistann segir á vef FIFA. „FIFA skráningarbannslisti er mikilvæg auðlind fyrir fótboltasamfélagið, þar sem greint er frá félögum um allan heim sem nú standa frammi fyrir skráningarbanni sem FIFA setur. Þessi listi inniheldur félög sem er tímabundið bannað að skrá nýja leikmenn vegna ýmissa brota, svo sem fjárhagsdeilna eða lagabrota. FIFA skráningarbannslisti þjónar sem ómissandi tæki fyrir aðildarfélög, samtök, klúbba, leikmenn og umboðsmenn, hjálpar til við að tryggja gagnsæi og samræmi innan íþróttarinnar, sem gerir hagsmunaaðilum kleift að vera upplýstir um hvaða félög eru óhæf til að fá nýja leikmenn á banntímabilinu,“ segir á vef FIFA.
Forráðamenn Gróttu komu í reynd af fjöllum þegar 433.is hafði samband við þá í dag. „Ekkert sem ég kannast við,“ sagði Jón Sigurðsson, framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar Gróttu um málið.
Þorsteinn Ingason formaður knattspyrnudeildar hafði fengið meldingu um málið en vissi ekki fyrir hvað félagið var sett í bann. Hann kveðst vinna að því að komast til botns í málinu og að það verði leyst úr þessari flækju. „Ég hef ekki hugmynd, ég fékk meldingnu um þetta. Þetta er orðið sjálvirkt, ég veit jafn lítið og þú. Þetta er eitthvað sem við erum að kanna, ég veit ekki meira um málið í dag,“ sagði Þorsteinn
Í Úlfarsárdal hafa menn ekki miklar áhyggjur af málinu, Guðmundur Torfason formaður knattspyrnudeildar Fram segir að málið verði leyst. „Þetta er eitthvað tæknilegt, TMS kerfi sem unnið er eftir. Mér skilst að það sé bara verið að leysa þetta,“ segir Guðmundur í samtali við 433.is en fór ekki nánar út í það hvað bannið snérist um.
TMS kerfið er alþjóðlegt kerfi þar sem öll félagaskipti fara í gegn, þar geta félög, leikmenn og umboðsmenn flaggað einhverju ef ekki hefur verið staðið við gerða samninga. „Það er ágætt að hafa svona kerfi, það á allt að vera á hreinu okkar megin. Við þurfum að fylgja öllum stöðlum það á að vera í lagi eftir því sem ég best veit,“ sagði Guðmundur.
Haukur Hinriksson lögmaður KSÍ sagðist hafa fengið veður af málinu og að hann hefði sent bréf til FIFA í gær til þess að fá frekar upplýsingar, það sé hins vegar ljóst að hvorki Grótta né Fram geta skráð inn nýja leikmenn á meðan FIFA er með þau á bannlista. Haukur hafði ekki fengið svar við bréfi sínu til FIFA enda líklega nóg að gera á skrifstofunni þar eftir að félagaskiptaglugginn lokaði í stærstu deildum Evrópu í gær.