Darwin Nunez er óánægður með Liverpool í kjölfar þess að félagið leyfði honum ekki að ræða við sádiarabíska félagið Al-Nassr.
The Sun heldur þesssu fram, en Al-Nassr, sem er með Cristiano Ronaldo innanborðs, hafði áhuga á Nunez áður en félagið fór og keypti Jhon Duran frá Aston Villa á 64 milljónir punda.
Talið er að Liverpool hafi hafnað 70 milljóna punda tilboði Al-Nassr í Nunez, sem á ekki fast sæti í liði Arne Slot á Anfield.
Nunez hefði viljað fá að ræða við Sádana í kjölfar þess að tilboðið barst en Liverpool tók ekki til greina að selja hann og stöðvuðust málin því þar.
Nunez, sem er 25 ára gamall, kom til Liverpool frá Benfica á 85 milljónir punda 2022. Hann hefur ekki staðist þann verðmiða, en er með sex mörk í öllum keppnum á þessari leiktíð.