Sigurður Gísli Bond Snorrason mætti til Helga Fannars og Hrafnkels Freys í nýjasta þátt Íþróttavikunnar á 433.is. Besta deild karla var í fyrirrúmi.
Það var til að mynda rætt um stöðu mála hjá FH, en Sigurður er stuðningsmaður og fyrrum leikmaður liðsins. Mikið hefur verið rætt og ritað um fjárhagsvandræði FH í vetur og alls óvíst hvernig leikmannahópurinn mun líta út á næstu leiktíð.
„Ég er ekki búinn að vera spenntur fyrir þessu FH liði lengi og það er ekkert að breytast. Þetta er ekki sama FH-liðið og ég ólst upp við og það böggar mig bara ógeðslega mikið,“ sagði Sigurður, en FH hafnaði í sjötta sæti deildarinnar í fyrra.
„Besta niðurstaðan fyrir FH eins og staðan er í dag er að enda í efri hlutanum,“ skaut Helgi þá inn í áður en Hrafnkell tók til máls.
„Þeir hafa komið inn á það að þeir eru bara að byggja þetta upp á nýtt. Það er því miður staðan. Hendur þeirra hafa verið bundnar peningalega séð lengi,“ sagði hann.
Umræðan í heild er í spilaranum.