Sigurður Gísli Bond Snorrason mætti til Helga Fannars og Hrafnkels Freys í nýjasta þátt Íþróttavikunnar á 433.is. Besta deild karla var í fyrirrúmi.
Það voru tíðindi úr Vesturbænum í vikunni þegar Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, tilkynnti að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri. Hann hefur verið formaður síðan eftir tímabilið 2019.
„Það hefur mikið gengið á en hann skilar góðu búi núna, hann má alveg eiga það, þetta lítur vel út,“ sagði Sigurður um málið.
Eins og hann kemur inn á hefur mikið gengið á og gengið ekki verið sérstakt undanfarin ár, einkum síðasta tímabil þar sem KR hafnaði í 8. sæti.
„Ég held að síðasta tímabil hafi verið sturlað að mörgu leyti. Óskar (Hrafn Þorvaldsson þjálfari) var í einhverjum þremur stöðum, Gregg Ryder er látinn fara, svo kemur Pálmi,“ sagði Hrafnkell.
Sigurður telur mikla pressu fylgja því að vera formaður KR. „Ég held þetta sé erfiðasta formannsstaða á Íslandi, kannski með FH, það er svo mikil pressa þarna.“
Hrafnkell tók til máls á ný. „Páll tekur við starfinu þegar þeir eru Íslandsmeistarar en liðið var samt að einhverju leyti game over. Það var ekki heldur peningur þá til að byggja liðið upp.“
Umræðan í heild er í spilaranum.