Eins galið og það kann að hljóma þá var James McClean, leikmaður Wrexham, í byrjunarliðinu og með fyrirliðabandið gegn Birmingham í vikunni.
Um var að ræða leik í þriðju efstu deild Englands en McClean hafði lent í bílslysi aðeins um 36 klukkutímum áður en flautað var til leiks.
McClean er þekktur fyrir það að vera mikill harðhaus og er afskaplega skapmikill inni á velli en hann var lengi leikmaður í ensku úrvalsdeildinni.
Sem betur fer þá slapp McClean nokkuð vel úr þessum árekstri en Phil Parkinson, stjóri liðsins, bjóst ekki við þeim írska í þessari viðureign sem lauk með 1-1 jafntefli.
,,Kvöldið í kvöld lýsir Jimmy. Klukkan níu um morguninn fáum við símtal þar sem okkur er sagt frá því að hann hafi lent í bílslysi og að hann megi ekki yfirgefa staðinn þar til lögreglan mætir á staðinn,“ sagði Parkinson.
,,Hann þarf svo á læknisaðstoð að halda og hittir lækni félagsins. Við vorum búnir að útiloka hann í leiknum gegn Birmingham.“
,,Þegar liðsfundurinn er hálfnaður þá labbar hann inn með takkaskóna á öxlunum og segir að allt verði í lagi. Hann æfði eðlilega á miðvikudaginn. Þetta er týpískur Jimmy, það fylgir honum engin dramatík.“