Manchester United hefur lækkað verðmiðann á Alejandro Garnacho töluvert samkvæmt Sky á Ítalíu.
Þessi tvítugi kantmaður gæti verið á förum frá United. Félagið er opið fyrir að selja hann fyrir rétt verð. Upphaflega var talað um að það væri um 75 milljónir punda en nú er talað um 55 milljónir punda.
United græðir vel á að selja Garnacho ef horft er til fjárhagsreglna. Þar kemur sér best fyrir bókhaldið að selja uppalda leikmenn. Þar telst allt sem fæst fyrir þá hagnaður, en Garnacho kom upp í gegnum unglingastarf United þrátt fyrir að vera frá Argentínu.
Napoli er talið líklegasta félagið til að hreppa Garnacho. Félagið reynir að fylla skarð Khvicha Kvaratskhelia sem er farinn til Paris Saint-Germain.
Garnacho hefur þó einnig verið orðaður við Atletico Madrid og Chelsea.