Dortmund er búið að reka Nuri Sahin úr starfi knattspyrnustjóra eftir vonbrigðargengi á leiktíðinni. Félagið staðfestir þetta.
Síðasti naglinn í kistu Sahin var tap gegn Bologna í Meistaradeildinni í gær. Dortmund er í 13. sæti keppninnar og þá er liðið í tíunda sæti þýsku úrvalsdeildarinnar, 20 stigum á eftir toppliði Bayern Munchen.
Sahin tók við Dortmund í sumra af Edin Terzic, sem kom liðinu alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar síðasta vor.
„Því miður höfum við ekki staðist væntingar á þessari leiktíð. Ég óska félaginu alls hins besta,“ er haft eftir Sahin í yfirlýsingu Dortmund.
Þetta var annað stjórastarf Sahin, en hann var áður með Antalyaspor í Tyrklandi í kjölfar þess að hann lagði skóna á hilluna.
Sahin ólst upp hjá Dortmund og lék þar sín fyrstu ár í meistaraflokki. Hann fór svo til Real Madrid, þaðan sem hann var svo lánaður til Liverpool meðal annars um stutt skeið.