Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, segir ekkert til í fréttum um að hann sé að hætta hjá félaginu.
Fréttir bárust í gær um það að ítalska goðsögnin væri að hætta eftir yfirstandandi tímabil. Hann segir það af og frá.
„Ég hef ekki ákveðið að yfirgefa Real Madrid. Vonandi verð ég í fjögur ár til viðbótar, rétt eins og forsetinn Florentino Perez. Það væri frábært að kveðja saman 2029,“ segir Ancelotti, en Perez var á dögunum endurkjörinn.
„Ég vil ítreka að það mun ekki koma í minn hlut að ákveða hvenær ég hætti hjá Real Madrid. Það er ekki ákvörðun.“
Ancelotti hefur stýrt Real Madrid síðan 2021, en hann var einnig með liðið 2013-2015. Á tíma sínum í spænsku höfuðborginni hefur hann unnið spænsku deildina tvisvar og Meistaradeildina þrisvar, svo dæmi séu tekin.
Ancelotti er með samning hjá Real Madrid út næstu leiktíð, en miðað við þessi ummæli hans er hann meira en til í að framlengja.