Fyrrum knattspyrnumaðurinn Wayne Bridge er hættur við það að slást við YouTube stjörnuna og söngvarann KSI þann 29. mars.
Það er Bridge sjálfur sem staðfestir fréttirnar á Instagram en hann hafði samþykkt að berjast við áhrifavaldinn.
Ástæðan fyrir ákvörðun Bridge er hegðun KSI sem minnti Bridge á atvik sem átti sér stað árið 2010 er hann lék með Manchester City.
Fyrrum liðsfélagi Bridge, John Terry, svaf þá hjá eiginkonu félaga síns, Vanessa Perroncel, en þau voru ekki lengi saman eftir það.
KSI ákvað að minna Bridge á þetta atvik opinberlega er þeir hittust fyrir framan myndavélarnar og fór það illa í fyrrum enska landsliðsmanninn.
,,Wayne Bridge? Ert þú ekki þessi gaur sem leyfði John Terry að sofa hjá fyrrum kærustunni þinni?“ sagði KSI.
,,Það er það sem þú ert þekktur fyrir,“ bætti KSI við og fékk svo áhorfendur til að syngja mjög óviðeigandi söngva.
Bridge hefur ekki áhuga á að taka þátt í svoleiðis leikriti og er því hættur við að berjast við þennan 31 árs gamla ‘boxara.’
,,Andstæðingur minn er einhver sem margir krakkar líta upp til, þar á meðal mín börn. Ég vona einn daginn að hann horfi á þetta öðrum augum,“ sagði Bridge.
,,Ég hef ekki áhuga á að taka þátt í þessum samskiptum. Ég mun ekki berjast þann 29. mars.“