Alejandro Garnacho færist nær því að ganga í raðir Napoli frá Manchester United ef marka má fréttir frá Ítalíu.
Hinn tvítugi Garnacho hefur verið orðaður frá United undanfarnar vikur, en hann er inn og út úr liðinu hjá Ruben Amorim. Napoli hefur einna helst verið nefnt til sögunnar en einnig Chelsea.
Napoli hefur þegar boðið 42 milljónir punda í kantmanninn en United vill 50 milljónir punda. Nú segir Correre dello Sport að Napoli sé til í að ganga að verðmiðanum.
Fulltrúar ítalska félagsins mæta samkvæmt sömu frétt til Englands í dag til að ganga frá kaupunum á Garnacho. Sjálfur er leikmaðurinn spenntur fyrir skiptunum.
United er til í að selja Garnacho þar sem það kemur sér vel gagnvart fjárhagsreglum. Það kemur sér afar vel fyrir bókhald félaga að selja uppalda leikmenn, en Argentínumaðurinn kom upp í gegnum unglingastarf United.
Hvað félagaskiptaglugga United varðar er félagið að ræða við Lecce um hugsanleg kaup á danska landsliðsmanninn Patrick Dorgu. Sá getur spilað á köntunum og í vinstri bakverði.