Víkingur hefur staðfest komu Atla Þórs Jónassonar frá HK.
Atli, sem er 22 ára gamall, kom til HK frá 4. deildarliði Hamars í byrjun árs 2023 og gerði hann sex mörk fyrir HK er liðið féll úr Bestu deildinni í sumar.
Nú tekur hann slaginn með Víkingi, sem hafnaði í 2. sæti í deild og bikar 2024 og ætlar sér stærri hluti á næstu leiktíð.
Víkingur er þá á fullu í Sambandsdeildinni, þar sem liðið er komið í útsláttarkeppni og mætir Panathinaikos í næsta mánuði.
Tilkynning Víkings
Knattspyrnudeild Víkings og HK hafa komist að samkomulagi um kaup á Atla Þór Jónassyni (2002). Atli er framherji og uppalinn hjá Hamri í Hveragerði, en lék í Bestu deildinni tímabilin 2023 og 2024 með HK. Hann skoraði 7 mörk í 24 leikjum fyrir HK í fyrra og í fersku minni er fernan sem hann setti á móti okkur í Bose mótinu seint á síðasta ári.
Gefum Kára Árnasyni, yfirmanni knattspyrnumála hjá Víking orðið:
Atli er gríðarlega spennandi leikmaður með mjög sérstaka kosti og á mikið inni að okkar mati. Hann er enn ungur að árum og afsakið slettuna en Atli hefur alla burði í að verða „unplayable“ vegna styrks síns og hraða. Þrátt fyrir mikla hæð er hann mikill íþróttamaður og ég er gríðarlega spenntur að fá hann í hópinn. Við væntum mikils af honum hér í Víkinni á næstu árum.
Knattspyrnudeild Víkings býður Atla Þór hjartanlega velkominn í Hamingjuna!