Manchester City mun hleypa Kyle Walker frítt í burtu, óski hann þess að fara.
Frá þessu greinir ítalski miðillinn La Gazzetta dello Sport, en bakvörðurinn reynslumikli hefur einmitt verið sterklega orðaður við ítalska boltann.
AC Milan þykir líklegasta félagið til að hreppa Walker, sem hefur einnig verið orðaður við Sádi-Arabíu.
Walker er sagður til í að fara í þessum mánuði og óski hann þess fær hann að fara frítt þó svo að meira en ár sé eftir af samningi hans.
Ástæðan ku vera sú að City sé að borga þessum trygga þjóni til baka eftir tæp átta góð ár hjá félaginu.