Liverpool ætti sterklega að íhuga það að losa sig við sóknarmanninn Darwin Nunez sem fyrst að sögn Robbie Fowler sem er fyrrum leikmaður félagsins.
Nunez hefur ekki beint staðist væntingar eftir komu frá Benfica árið 2022 og er með 22 deildarmörk í 80 leikjum.
Sóknarmaðurinn fékk að spila gegn Accrington í enska bikarnum í gær en var svo sannarlega ekki heillandi í öruggum 4-0 sigri.
Fowler telur að Nunez henti ekki Liverpool og að hann sé ekki leikmaður sem á að spila í fremstu víglínu á Anfield.
,,Við erum að segja það sama í dag og fyrir tveimur eða þremur árum. hann er hrár, hann er þetta og hann er hitt,“ sagði Fowler.
,,Það er hægt að segja það endalaust. Því meira sem ég horfi á hann, því meira átta ég mig á því að hann er enginn Liverpool leikmaður.“