Freyr Alexandersson er að taka við Brann í Noregi samkvæmt fréttum þar í landi.
Freyr hefur undanfarið átt í viðræðum við norska stórliðið og fékk á dögunum samningstilboð, sem hann hefur nú samþykkt.
Freyr var látinn fara frá belgíska úrvalsdeildarliðinu Kortrijk fyrir áramót, en þar áður hafði hann gert frábæra hluti með Lyngby í Danmörku.
Eftir þessi tíðindi má gera ráð fyrir að Arnar Gunnlaugsson verði næsti þjálfari karlalandsliðs Íslands. Hann, Freyr og ónefndur erlendur aðili hafa fundað með KSÍ undanfarið Arnar og Freyr hafa þótt líklegastir til að taka við.
Nú fer Freyr til Brann og virðast því vera yfirgnæfandi líkur á að Arnar, sem er auðvitað þjálfari Víkings, taki við landsliðinu.
Brann er sem fyrr segir stórt lið í Noregi og hefur hafnað í öðru sæti úrvalsdeildarinnar þar í landi undanfarin tvö tímabil.