Dómarinn Stuart Attwell skráði sig í sögubækurnar í vikunni er hann dæmdi leik Tottenham við Liverpool.
Um var að ræða leik í enska deildabikarnum en honum lauk með 1-0 sigri Tottenham í London.
Seinni leikurinn á eftir að fara fram og er Liverpool ekki í of slæmri stöðu fyrir heimaleikinn á Anfield.
Attwell sá um að dæma viðureignina en í seinni hálfleik var mark tekið af Tottenham eftir rangstöðu sem var dæmd á Dominic Solanke.
Attwell tilkynnti ákvörðunina í kallkerfið á Tottenham vellinum sem er í fyrsta sinn sem það gerist í enskum fótbolta.
Enska knattspyrnusambandið er að prufukeyra regluna sem notuð er í MLS deildinni í Bandaríkjunum þar sem dómarinn segir áhorfendum frá því hvaða ákvörðun hafi verið tekin eftir ákveðin vafaatriði.