Gísli Gottskálk Þórðarson gekk í vikunni í raðir pólska stórliðsins Lech Poznan frá Víkingi. Íslenska félagið fékk vel í aðra hönd fyrir viðskiptin.
Hinn tvítugi Gísli átti frábært tímabil með Víkingi og hefur heillað með frammistöðu sinni í Sambandsdeildinni, þar sem liðið er komið í útsláttarkeppni. Miðjumaðurinn hafði verið orðaður við nokkur lið en fór til Lech, sem er á toppi pólsku úrvalsdeildarinnar.
Skiptin voru til umræðu í Dr. Football. „Talan sem ég heyri er 400 þúsund evrur,“ sagði Gunnar Birgisson þar um verðmiðann á Gísla. Hann geti meira að segja orðið enn hærri. 400 þúsund evrur jafngilda rúmum 58 milljónum króna.
Lech bindur miklar vonir við Gísla, en hann gerði fjögurra og hálfs árs saming við félagið.