Cristiano Ronaldo ætlar ekki að fara frá sádiarabíska liðinu Al-Nassr, allavega ekki á allra næstunni. Þetta sagði hann í viðtali þar í landi.
Ronaldo verður fertugur á næstunni og er risastór samningur hans við Al-Nassr að renna út í sumar. Hann hefur verið orðaður við brottför, jafnvel strax í janúarglugganum.
„Ég er ánægður hér og fjölskyldan er ánægð. Við hófum nýtt líf í þessu fallega landi og það er gott, það gengur vel í fótboltanum líka,“ segir Ronaldo.
Al-Nassr er í fjórða sæti sádiarabísku deildarinnar, 11 stigum á eftir toppliði Al-Ittihad eftir 13 leiki.
„Það er erfitt að keppa við lið eins og Al-Hilal og Al-Ittihad en við reynum. Þú átt slæma og góða kafla í fótbolta en það mikilvægasta er að vera faglegur, gera þitt besta og virða félagið þitt.“