Trent Alexander-Arnold, bakvörður Liverpool, átti arfaslakan leik í 2-2 jafnteflinu gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Trent hefur mikið verið í umræðunni vegna hugsanlegra skipta hans til Real Madrid næsta sumar. Samningur hans við Liverpool er að renna út og svo virðist sem hann sé á förum eftir tímabilið.
Það er spurning hvort Trent sé kominn með hausinn til Real Madrid. Hann var allavega arfaslakur í dag svo eftir því var tekið.
„Er ekki kominn tími til að taka Trent-Alexander Arnold af velli? Hann er að eiga algjöran hauskúpu-leik,“ sagði knattspyrnulýsandinn ástsæli, Hörður Magnússon, er hann lýsti leiknum á Sjónvarpi Símans í dag.
Þá lét Roy Keane Trent gjörsamlega heyra það á Sky Sports. „Við tölum um hvað hann er góður fram á við en hann var eins og skólastrákur í vörninni í dag,“ sagði hann.
„Það er talað um að hann sé á leið til Real Madrid en með þessum varnarleik er hann frekar á leið til Tranmere Rovers.“