Berglind Björg Þorvaldsdóttir er gengin í raðir Breiðabliks á nýjan leik, en félagið staðfesti tíðindin í kvöld.
Berglind var samningslaus eftir að Valur nýtti sér heldur óvænt uppsagnarákvæði í samningi hennar eftir síðustu leiktíð. Hún gekk í raðir Vals eftir að hún kom heim úr atvinnumennsku á miðju tímabili.
Berglind þekkir vel til hjá Breiðabliki en hún er uppalin þar og raðaði inn mörkum fyrir félagið á árum áður. Hún hefur spilað fyrir lið á borð við AC Milan og Paris Saint-Germain erlendis.
Berglind, sem er 32 ára gömul, á að baki 72 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Í þeim hefur hún skorað 12 mörk.
Tilkynning Breiðabliks
Berglind Björg er komin heim.
Við byrjum árið 2025 á að segja ykkur þær frábæru fréttir að Berglind Björg Þorvaldsdóttir er búin að semja við Breiðablik. Hana þarf vart að kynna fyrir Blikum, hún á alls 224 leiki fyrir Breiðablik og hefur skorað í þeim leikjum 174 mörk.
Berglind spilaði sína fyrstu leiki fyrir Breiðablik árið 2007, hún hefur leikið með yngri landsliðum Íslands og á að auki 72 A landsleiki og hefur skorað í þeim 12 mörk.
Berglind hefur spilað með liðum víða um Evrópu á síðustu árum, má þar nefna PDV, AC Milan, Le Havre og Hammarby.
Það er óhætt að segja að hringnum sé lokað, vertu velkomin heim í Kópavoginn Berglind Björg – Það eru spennandi tímar framundan.