Marc Cucurella sér alls ekki eftir því að hafa sungið söngva um Erling Haaland í sumar eftir að Spánn vann EM í Þýskalandi.
Cucurella skaut létt á framherjann sem spilar með Manchester City en ætlunin var aldrei að móðga neinn. Spánverjinn segir þó að Haaland hafi tekið þessu nokkuð persónulega.
Bakvörðurinn spilar með Chelsea en Haaland skoraði gegn hans liði í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í ágúst.
Cucurella sér ekki eftir því að hafa sungið lagið fyrir framan stuðningsmenn Spánar og myndi gera það aftur ef tækifærið gefst.
,,Það var mikið fjallað um þetta á Englandi en svona hlutir gerast. Ég er mjög ánægður með þetta allt saman. Ef einhver notar þitt nafn í svona söngvum þá þýðir það að þú ert toppleikmaður og í heimsklassa. Óþekkt nafn væri ekki notað,“ sagði Cucurella.
,,Allir voru ánægðir þegar hann skoraði en ég var alveg jafn ánægður að vinna EM. Ég myndi gera þetta aftur.“
,,Ég held að Haaland hafi ekki alveg skilið þetta – söngvarnir voru teknir úr samhengi. Hann las það sem var skrifað í fjölmiðlum og tók því nokkuð persónulega.“