„Mér líður mjög vel, þetta er öðruvísi. Við höfum byrjað frekar vel og unnið þrjá leiki í röð,“ segir Willum Þór Willumsson nýr leikmaður Birmingham á Englandi og leikmaður íslenska landsliðsins.
Willum var seldur frá Hollandi til Birmingham sem leikur í þriðju efstu deild Englands. KLúbburinn er stór og er litið á það sem stórslys að þetta stóra félag sé þar. Stefnan er sett beint upp.
„Við þurfum að fara upp, það er ekkert annað í boði. Hann á ekki að vera í þessari deild, fullt af flottum leikmönnum sem búið er að kaupa.“
Tom Brady, goðsögn úr NFL deildinni í Bandaríkjunum er einn eiganda Birmingham og vakti það athygli um daginn þegar hann hrósaði íslenska landsliðsmanninum.
„Þetta var bara skemmtilegt, ég sá þetta ekki fyrr en vinir mínir sendu á mig,“ sagði Willum sem býst við því að hitta Brady á næstunni.
„Hann hefur ekki mætt, hann hélt ræðu fyrir okkur fyrir fyrsta leik en hann fer að mæta á leik fjótlega. Menn hlusta þegar hann talar.“
Íslenska landsliðið mætir Svartfjallalandi á föstudag en þá hefst ný Þjóðadeild. „Við ætlum inn í þessa tvo leiki til að gera okkar besta og sækja í þrjú stig hérna heima og svo tel ég okkur eiga fína möguleiki úti gegn Tyrkjum.“